Seðlabanki Íslands tilkynnti sl. mánudag um fyrsta skref í afnámi hafta á gjaldeyrisútflæði, þegar hann bauðst til þess að kaupa 15 milljarða króna af erlendum aðilum, og einnig af innlendum aðilum sem hafa átt krónur í erlendum bönkum frá því að gjaldeyrishöft voru sett. Því er um að ræða kaup á hinum svokölluðu af landskrónum. Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að með uppboðinu fáist miklar upplýsingar. „Við fáum að vita hvaða verð þessir aðilar eru tilbúnir að fá fyrir krónurnar. Það gefur okkur miklar upplýsingar um hversu óþolinmóðir, eða þolinmóðir, þeir eru,“ segir Már í samtali við Viðskiptablaðið. Hann segir að þetta fyrsta útboð sé nokkurs konar prufukeyrsla.

Útboðið sem hefur verið kynnt er fyrri hluti þess ferlis sem kynnt var sem fyrsta skref í afnámi hafta í Áætlun um losun gjaldeyrishafta. Síðari hlutinn, sem enn hefur ekki verið kynntur formlega, snýr að því að Seðlabankinn býður innlendum aðilum krónurnar til kaupa fyrir gjaldeyri. „Í síðara skrefinu kemur til kasta aðila, sem geta þá keypt þessar krónur. Þær verða væntanlega ódýrari heldur en á álandsmarkaði í dag, en hversu mikið á eftir að koma í ljós. Vonin er sú að þeir sjái sér hag í því að flytja gjaldeyri til landsins og skipta honum út fyrir þessar krónur,“ segir Már.

Í umræðunni eru það helst lífeyrissjóðir sem eru nefndir til sögunnar sem mögulegir kaupendur þessara króna, sem áður voru aflandskrónur. Már bendir á að í útboðinu skuldbinda kaupendur krónanna, t.d. lífeyrissjóðir, sig til að kaupa þær sem löng ríkisskuldabréf. Um er að ræða sérstakan flokk sem gefinn er út og er til ársins 2030. Skilyrði er að aðilar haldi bréfunum í 5 ár.

Viðtal við Má Guðmundsson má finna í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.