Árni Esra Einarsson hefur keyt hlut Guðmundar Magnússonar og fjölskyldu í auglýsingavörufyrirtækinu Margt smátt / Bolur ehf. Þetta kemur fram í frétt Viðskiptablaðsins í dag. Þeir Guðmundur og Árni, sem er markaðsstjóri fyrirtækisins, hafa starfað saman að félaginu um 11 ára skeið.

Margt smátt / Bolur selur merktar auglýsinga- og kynningavörur. Veltan í fyrra var liðlega 400 milljónir króna og starfsmenn eru 25. Að sögn aðstandenda er fyrirtækið því stærsta auglýsingavörufyrirtæki landsins.

Árni segir spennandi tækifæri fram undan á þessum markaði. Stefnan sé að viðhalda og bæta eftir megni þjónustu fyrirtækisins. Ýmsar nýjungar séu á prjónunum sem ekki sé þó hægt að greina frá að sinni.

Sjá nánar í Viðskiptablaðinu í dag.