Matvælaverð í heiminum mun hækka að meðaltali um 30-35% á næstu tíu árum ef ekki kemur til gjörbreyting á sóun í matvælaframleiðslunni að mati UNEP umhverfisverkefnis Sameinuðu þjóðanna. Þetta þýðir að vaxandi fjöldi fátæks fólks mun þurfa að nota um 90% af tekjum sínum í mat.

Í frétt UNEP er bent á að gríðarleg sóun er nú á matvælum um allan heim. Matvælum sé hent í stórum stíl og notaðar í landfyllingar. Um helmingur framleiddra matvæla fari þannig til spillis. Með betri nýtingu mætti auðveldlega fæða vaxandi mannfjölda heimsins með þeirri framleiðslugetu sem nú er og um leið vernda umhverfið.

Achim Steiner stjórnandi UNEP verkefnisins segir að mikil þörf sé á að bæta framleiðsluaðferðir, dreifingu, sölu og matreiðslu. Þá sé þörf á byltingu í hugsunarhætti þar sem fólk vinni með náttúrunni í staðin fyrir að vinna gegn henni.

Þá er bent á að um ein þriðji af kornframleiðslu heimsins sé notuð í dýrafóður og það hlutfall muni aukast í 50% fram til 2050. Þá fari mikið til framleiðslu á lífrænu eldsneyti, en þeirri þörf mætti vel sinna með nýrri tækni við endurvinnslu á matvælaúrgangi.

Eins er sagt að brottkast á fiski sé um 30 milljónir tonna á ári sem gæti mætt 50% aukningu í fiskirækt sem talin er nauðsynleg fram til 2050 til að anna eftirspurn.