Heildarveiði í laxveiðiám landsins eru 16.800 laxar það sem af er sumri, samkvæmt nýjum tölum Landssambands veiðifélaga.

Aflinn dregst saman um 52% milli ára og verður veiðisumarið 2014 að teljast með lakari veiðisumrum, að því er fram kemur á vef sambandsins. Í liðinni viku veiddust t.a.m. 1346 fiskar, sem er um 800 löxum minna en um sömu mánaðarmót árið 2012.

Í samtali við Morgunblaðið í dag segir Sigurður Guðjónsson, forstjóri Veiðimálastofnunar, að sveiflurnar í laxveiði séu orðnar miklu örari milli ára. Hann segir jafnframt að léleg laxveiði í sumar geti haft áhrif á sölu veiðileyfa á næsta ári

Þrátt fyrir að veiðisumarið teljist slæmt þegar á heildina er litið þá er staðan misjöfn eftir svæðum, en Norðurland hefur komið best út í sumar.