Meðallaun í opinberri stjórnsýslu hafa hækkað um rúm 41% frá árinu 2015 samanborið við 25% hækkun á meðallaunum allra á vinnumarkaði. Þetta kemur fram í hagsjá Landsbankans.

Í hagsjánni kemur fram að staðgreiðsluskyld laun allra á vinnumarkaði, það er launasumman, hafi hækkað um 8,4% milli fyrstu tíu mánaða 2020 og 2021. Á milli 2020 og tíu fyrstu mánaða ársins 2021 hafa meðaltekjur allra á vinnumarkaði hækkað um 2,7%. Tekjurnar hækkuðu um 8,6% í ferðaþjónustu, en atvinnugreinin var í algjörum lamasessi á árinu 2020 þegar faraldurinn var sem skæðastur.

Laun í opinberri stjórnsýslu hafa hækkað um rúm 6% milli ára, sem er tvöfalt meira en meðaltal allra atvinnugreina. Út frá gögnum Hagstofunnar eru meðallaun í opinberri stjórnsýslu tæp 600 þúsund á mánuði en til samanburðar eru meðallaun heilt yfir allar atvinnugreinar rúm 430 þúsund mánaðarlega. Fyrirvarar eru gefnir fyrir útreikningum á meðallaunum, þar sem mismunandi starfshlutfall er á milli atvinnugreina og mismunandi menntunarstig.

Laun í opinberri stjórnsýslu hækkað um 40%

Þegar horft er til ársins 2015 hafa meðallaun allra á vinnumarkaði hækkað um rúm 25%. Meðallaun í opinberri stjórnsýslu hafa hins vegar hækkað um 41% á sama tímabili. Meðallaun í ferðaþjónustu hafa auk þess hækkað um 36% á tímabilinu, en meðallaunin í fjármála- og vátryggingastarfsemi hafa hækkað næstum jafn mikið og meðallaun allra á vinnumarkaði.

Í hagsjánni kemur fram að ýmsir þættir skipti máli þegar meðaltekjur í mismunandi atvinnugreinum eru bornar saman yfir ákveðið tímabil. Útfærsla síðustu kjarasamninga fólu meðal annars í sér krónutöluhækkanir sem gera það að verkum að lægri launuð störf hækka hlutfallslega meira í launum en hálaunuð störf.