Ofþyngd er heilsufarskvilli sem hrjáir íslensku þjóðina. Í nýútkominni bók, Holdafar - hagfræðileg greining, kemur fram að meirihluti fullorðinna Íslendinga er yfir kjörþyngd, samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, og hlutfall þeirra sem eru í offituflokki fellur undir offitufaraldur samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Auk þess eru 20% barna of þung og um 5% of feit.

Höfundur bókarinnar, dr. Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, heilsuhagfræðingur og sérfræðingur hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, hefur leitast við að svara hvaða hagfræðilegu áhrif þeir lifnaðarhættir sem orsaka breytta holdafarsþróun þjóðarinnar hafa. Niðurstöður hennar sýna að breytingar á holdafari þjóðarinnar hafa veruleg áhrif á útgjöld samfélagins og auka álagið á heilbrigðisþjónustuna. Allar aðgerðir og inngrip stjórnvalda á markað skal þó skoða með tilliti til samfélaglegs ávinnings og taka verður tillit til þess fórnarkostnaðar sem af þeim leiðir.

Rætt er við Tinnu í helgarblaði Viðskiptablaðsins.