Fjárfesting japanskra fyrirtækja jókst um 13,6% á fyrsta ársfjórðungi þessa árs samanborið við sama tímabil í fyrra. Samtals nam hækkunin 145 milljörðum Bandaríkjadala, sem er það hæsta frá því að slíkar mælingar hófust árið 1960 og langt umfram það sem flestir greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir. Þetta kemur fram í nýjum opinberum tölum sem fjármálaráðuneytið birti í gær um starfsemi fyrirtækja þar í landi og er til marks um að fjárfesting sé í auknum mæli farin að stuðla að efnahagsbata í japanska hagkerfinu, en viðvarandi stöðnun hefur ríkt í efnahagslífi landsins frá því byrjun tíunda áratugarins. Undanfarin misseri hafa þó komið fram margar vísbendingar í þá veru að þetta næst stærsta hagkerfi heimsins sé farið að taka við sér, - meðal annars aukinn útflutningur og einkaneysla - enda þótt efnahagsleg viðreisn landsins muni eflaust taka lengri tíma en margir höfðu áætlað.

Í ársfjórðungslegri könnun ráðuneytisins, sem byggir á svörum frá nítjánd þúsund japönskum fyrirtækjum, er einnig greint frá því að sölutekjur og hagnaður fyritækja fyrir skatta hafi hækkað verulega á milli ársfjórðunga. Hagnaður fyrir skatta nam samtals 137 milljörðum Bandaríkjadala og nam hækkunin á milli ársfjórðunga 7,4%. Í frétt dagblaðsins International Herald Tribune (IHT) í gær er sagt frá því að þetta sé nítjándi ársfjórðungurinn í röð sem japönsk fyrirtæki eru samanlagt rekin með hagnaði fyrir skatta, en það er jafnoft og á árunum 1965 til 1970 þegar japanskt efnahagslíf gekk í gegnum mikla uppsveiflu. Sölutekjur hækkuðu um 6,3% og námu samtals um 3,25 billjónum dala, sem er það hæsta frá því að mælingar hófust.

Þessi mikla aukning í fjárfestingum japanskra fyrirtækja mun gera það að verkum að þarlend stjórnvöld þurfa að endurskoða bráðabirgðartölur sínar um 2,4% hagvöxt á fyrstu þremur mánuðum þessa árs. Takuji Aida, aðalhagfræðingur Barclays Capital í Japan, segir í samtali við IHT að hann búist fastlega við því að sú tala verði hækkuð upp í 2,9%. Að mati Naoki Murakami, hagfræðings hjá Goldman Sachs í Japan, má hins vegar gera ráð fyrir enn meiri hækkun. Murakami telur líklegt að endurskoðaðar tölur um hagvöxt á fyrsta ársfjórðungi verði um 3,3%.

Fjárfesting í viðskiptalífinu telur um fimmtán prósent af árlegri þjóðarframleiðslu Japans. Af þeim sökum er ljóst að niðurstaða könnunar fjármálaráðuneytisins mun setja auking þrýsting á Japansbanka um að hækka stýrivexti sína á næstunni, en bankinn hækkaði síðast vextina í febrúarmánuði síðastliðnum upp í 0,5%. Í frétt Dow Jones-fréttastofunnar er hins vegar haft eftir seðlabankastjóra Japans, Toshihiko Fukui, að þessar nýju hagtölur hafi ekki komið á óvart og séu í takt við spár Japansbanka.