Innflutningur í nóvember samkvæmt bráðabirgðatölum um innheimtu virðisaukaskatts nam um 21 milljarði króna, án skipa og flugvéla. Ef þetta reynist rétt er nóvember með mestu innflutningsmánuðum ársins. Undanfarin ár hefur innflutningur í nóvember verið minni en í október en samkvæmt þessum tölum er um 5% aukningu að ræða milli mánaða og innflutningur er þriðjungi meiri nú en í nóvember í fyrra borið saman á raunverði.

Samkvæmt þessum bráðabirgðatölum má gera ráð fyrir að innflutningur til nóvemberloka hafi verið 17% meiri en á sama tíma í fyrra reiknað á föstu verði og án skipa og flugvéla. Þetta kemur fram í vefriti fjármálaráðuneytisins.

Meginskýringar aukins verðmætis innflutnings er að finna í liðunum innflutt flutningatæki, innfluttar hrá- og rekstrarvörur og innflutt eldsneyti. Eldsneytisverð hefur hækkað um fimmtung fyrstu tíu mánuði ársins sem skýrir hluta af verðmætaaukningunni, en magnaukning þessa mánuði er um 10%. Ef neyslutengdar vörur eru skoðaðar sérstaklega virðast þær skýra um 10-12% af verðmætaaukningu innflutnings til nóvemberloka. Innflutningur bifreiða hefur aukist um 30% að verðmæti og skýrir um 5% aukningarinnar. Aðrar neysluvörur eins og heimilistæki, fatnaður, lyf og tóbak skýra um 4% en einnig hefur innflutningur matvara aukist. Þetta er vísbending um að einkaneysla sé nokkru meiri en spáð var í síðustu þjóðhagsspá.

Þegar verið er að skoða bráðabirgðatölur um innflutning hér í vefritinu er
yfirleitt verið að skoða og bera saman tölur án innflutnings skipa og flugvéla.
Fyrirliggjandi tölur um innflutning til októberloka sýna 4 milljarða króna
meiri innflutning flugvéla en á sama tímabili í fyrra en aftur á móti tæplega 2
milljarða króna minni innflutning skipa. Samkvæmt fréttum hafa nú tvö ný
skip bæst í flota landsmanna, nýtt fjölveiðiskip kom til Húsavíkur í lok
nóvember og nýtt uppsjávarveiðiskip kom til Grindavíkur í gær.

Vöruskiptajöfnuður fyrstu tíu mánuði ársins var neikvæður um 32 milljarða
króna. Í síðustu þjóðhagsspá í september var gert ráð fyrir tæplega 40
milljarða króna halla á vöruskiptum árið 2004 og lítur út fyrir að sú spá muni
rætast. Útflutningur sjávarafurða í nóvember verður sennilega með meira
móti en góð aflabrögð hafa verið hjá frystiskipum t.d. hjá Granda og í
nóvember eru síðustu forvöð að senda út saltfisk fyrir jólin. Ef gert er ráð
fyrir nokkru meiri sjávarafurðaútflutningi í nóvember en október má leiða
líkum að því að útflutningur í nóvember gæti orðið um 18 milljarðar króna.
Vöruskiptahallinn í nóvember yrði þá um 3½ milljarðar króna, án skipa og
flugvéla.