Mikil velta var á skuldabréfamarkaði í gær miðað við það sem verið hefur undanfarnar vikur, segir í morgunpósti IFS greiningar. Veltan nam um 14,4 milljörðum króna.

Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra ríkisskuldabréfa hækkaði um 3-9 punkta í gær á meðan krafa verðtryggðra bréfa lækkaði um 1-6 punkta. Verðbólguótti fjárfesta hefur aukist nokkuð þar sem verðbólguálag hefur farið úr því að vera 3,6% á meðaltíma RB19 þann 20. ágúst síðastliðinn upp í 4,3% í gær.

IFS segir að umræða um niðurfærslu á skuldum heimilanna og hækkun launa í nýjum kjarasamningum hafi þrýst upp verðbólguvæntingum þrátt fyrir að ekkert nýtt hafi komið fram í viðtali forsætisráðherra í Kastljósi í fyrradag.