Mikil viðskipti hafa verið með bréf í Landsbankanum [ LAIS ] í dag.

Rétt fyrir hádegi fóru fram viðskipti að andvirði um 2,1 milljarð króna. Þar var um að ræða sölu á rúmlega 79 milljón hlutum á genginu 26,82 sem er yfir markaðsgengi bankans en það er í dag 22,9 á hvern hlut.

Fyrir opnun í morgun fóru fram utanþingsviðskipti með bréf í bankanum fyrir 585 milljónir en þar var um að ræða sölu á 25 milljón hlutum á genginu 23,4.

Velta með bréf í Landsbankanum er nú um 3 milljarðar en önnur viðskipti eru nokkuð minni. Þess má geta að heildarvelta með hlutabréf það sem af er degi í Kauphöllinni eru rétt tæpir 5 milljarðar.

Samkvæmt Markaðsvakt Mentis hafa tæplega 30 viðskipti verið með bréf í bankanum í dag.

Gengi bréfa í Landsbankanum hefur lækkað um 1,9% og sem fyrr segir er meðalgengið 22,9 á hvern hlut.