Útboðsgjald á ýmsum innfluttum búvörum frá ríkjum Evrópusambandsins hækkaði töluvert í síðasta útboði tollkvóta. Þar af hækkaði gjald sem innflytjendur þurfa að greiða fyrir innflutning á kíló af svínakjöti án tolla um 29% frá síðasta útboði. Gjald fyrir kíló af tollkvóta fyrir þurrkaðar og reyktar skinkur hækkaði um 51% og gjald fyrir pylsukvóta hækkaði um 25%. Hækkanirnar bætast við hækkanir á afurðaverði á heimsmarkaði, að því er kemur fram í frétt hjá Félagi atvinnurekenda.

Lagabreyting var gerð á Alþingi í árslok 2020 þar sem horfið var frá jafnvægisútboði og tímabundið tekin upp eldri aðferð við útboð tollkvóta til að vernda innlenda framleiðendur fyrir samkeppni, vegna áfalla af völdum heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Í öllum vörum nema osti hefur mikil hækkun orðið á útboðsgjaldinu, í kjölfar lagabreytingarinnar. Frá því að eldri útboðsaðferðin var tekin upp á nýjan leik hefur hækkun á útboðsgjaldi þurrkaðra og reyktra skinka til að mynda verið 37-föld. Gjaldið fyrir nautakjöt hefur hækkað um 64% og gjald fyrir alifuglakjöt um 62,5%.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að lagabreytingin hafi náð tilætluðum árangri, það er að hækka verulega verð á innfluttri vöru og veita þannig innlendum framleiðendum búvara skjól fyrir samkeppni. Hann bætir við að stjórnvöld hafi þó ekki áttað sig á því að með lagabreytingunni væru þau meðvitað að stuðla að hækkun á matvöruverði. Á sama tíma er gríðarlega mikill þrýstingur á verðlag vegna innfluttrar verðbólgu, þ.e. vegna hækkana á vörum á heimsmarkaði, þar á meðal búvörum.