Miklar lækkanir voru á hlutabréfum á Aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Einungis eitt fyrirtæki, N1, hækkaði á hlutabréfamarkaði í dag og hækkaði um 0,4%

Hlutabréf Vodafone lækkuðu mest eða um 2,8%. Eik lækkaði um 0,48%, Hagar um 0,54%, Reginn um 0,98%, Icelandair um 1,22%, Marel um 1,32%, Reitir um 1,43%, Vís um 1,65%, HB Grandi um 1,93%, Sjóvá um 2,16%, og loks TM um 2,59%.

Fyrr í dag sagði  Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans, í samtali við Viðskiptablaðið að líklega stafi lækkanirnar að meginhluta af tilkynningu peningastefnunefndar Seðlabankans, sem birtist í morgun, um að hækka stýrivexti bankans um 0,5 prósentur.

„Seðlabankinn svo gott sem lofar stýrivaxtahækkun í ágúst og sá harði tónn hefur kannski komið mönnum á óvart. Svo gætu þetta líka verið timburmenn eftir góðu tíðindin í byrjun vikunnar varðandi afnámsáætlun stjórnvalda,“ segir Daníel, en síðustu tvo daga höfðu hlutabréf hækkað mikið í verði.

Heildarvelta á markaðnum í dag nam 17,3 milljörðum og nam velta hlutabréfaviðskipta 2,1 milljarði.

Úrvalsvísitala lækkaði um 1,16% í dag og var lokagildi hennar 1,449.45 stig. Hún hefur hækkað um 10,56% frá áramótum og náði hæsta gildi sínu frá hruni í gær.