Kópavogsbær þarf samtals að greiða 1,6 milljarða króna fyrir íþróttaaðstöðu sem byggð hefur verið upp í Kórahverfinu í Kópavoginum, í samtarfi við Knattspyrnuakademíu Íslands. Efnahagshrunið haustið 2008 setti stórhuga uppbyggingaráform Knattspyrnuakademíu Íslands og Kópavogsbæjar í uppnám, miðað við upphaflegar forsendur. Farsælast þótti því fyrir bæinn að kaupa mannvirkin.

Helstu aðstandendur Knattspyrnuakademíu Íslands eru Eiður Smári Guðjohnsen, leikmaður Tottenham á Englandi, Arnór Guðjohnsen, faðir Eiðs Smára, Guðni Bergsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliði og nú starfandi lögmaður, Logi Ólafsson, þjálfari KR, og Ásgeir Sigurvinsson, einn þekktasti íslenski knattspyrnumaðurinn á erlendri grundu. Bærinn kaupir íþróttamannvirkin af Knattspyrnuakademíu Íslands en í samningum felst einnig að samningar milli Knattspyrnuakademíu Íslands og lánastofnana eru gerðir upp.

Gunnsteinn Sigurðsson, bæjarstjóri í Kópavogi, segir það hafa verið metið farsælast fyrir bæinn, og hagkvæmast til lengri tíma, að kaupa þau mannvirki sem búið er að byggja upp og nýta þau eftir fremsta megni. "Þetta er vitaskuld meiri fjárhæð en reiknað hafði verið með í upphafi og það eru vonbrigði að þurfa kosta meiru til af skattfé í þetta verkefni en reiknað hafði verið með. En forsendur eru breyttar og að vel athuguðu máli töldum við þetta farsælustu lausnina. Til langs tíma teljum við að það sé skynsamlegra að kaupa íþróttamannvirkin og reka þau en að leigja þau, í ljósi breyttra aðstæðna," segir Gunnsteinn.

Stórhuga hugmyndir Kópavogsbær og Knattspyrnuakademía Ísland undirrituðu viljayfirlýsingu 14. október 2005 þar sem útlistaður var vilji til mikillar uppbyggingar íþróttaaðstöðu í Kórahverfinu í Kópavogi. Þá var gert ráð fyrir að heildarkostnaður bæjarins við uppbyggingu á svæðinu yrði 7-800 milljónir króna. Heildarkostnaður bæjarins við uppbyggingu íþróttamannvirkja í kórahverfinu nemur nú vel á þriðja milljarð. Í upphafi var horft til þess að byggja upp knattspyrnuhús og knattspyrnuaðstöðu auk miðstöðvar starfstengdrar sérfræði- og rannsóknarstarfsemi á sviði íþrótta og lýðheilsu í samvinnu við framhaldsskóla á svæðinu. Gert var ráð fyrir að íþróttahús yrði á svæðinu, sundlaug, fjölnota knatt- og sýningarhús með keppnisaðstöðu fyrir knattspyrnu, líkamsræktaraðstöðu, þremur knattspyrnuvöllum utandyra í fullri stærð, og tengingu við útivistarsvæði Heiðmerkur. Þá ætlaði Knattspyrnuakademían að byggja upp heilsu- og fræðasetur, þar sem yrði aðstaða fyrir sjúkraþjálfun auk aðstöðu fyrir meistara- og doktorsnámsnema í íþrótta- og lýðheilsufræðum. Þá voru einnig uppi áform um byggingu framhaldsskóla á svæðinu sem hefði þá sérstöðu að bjóða nemendum upp á íþróttasérhæfingu á mörgum sviðum íþrótta. Einnig stóð til að reisa hótel og auk íbúða og fleiri mannvirkja, sem gera áttu svæðið að glæsilegu og heildrænu íþróttasvæði. Samtals átti byggingamagn á svæðinu að vera um 35 þúsund fermetrar, samkvæmt áformum sem kynnt voru opinberlega.

Gera gott úr stöðunni Guðni Bergsson segir að eftir hrunið hafi verið horft til þess að reyna að gera sem best úr stöðunni og hægt var, og tryggja að eignir, sem þegar var byrjað að byggja upp, yrðu nýttar sem best. "Alveg frá upphafsstigum hefur samstarfið vegna þessa verkefnis verið gott, og þannig hefur það einnig verið eftir áföllin í efnahagslífinu. Við höfum unnið að því með sveitarfélaginu að ná sem bestri niðurstöðu í þetta mál. Kópavogsbær hefur nú keypt íþróttamannvirki sem þegar er búið að byggja, eða verið að byggja. Það má heldur ekki gleyma því að uppbygging íþróttamannvirkja er langtímafjárfesting sem skilar miklu til samfélagsins. Kópavogsbær hefur að mínu mati sýnt þessum áherslum mikinn skilning," segir Guðni. Hann segir Knattspyrnuakademíuna ekki vera af baki dottna þrátt fyrir erfiðleika í rekstri. "Við getum verið stoltir af því að bjóða upp á þessa þjónustu sem þúsundir ungmenna hafa nýtt sér og eru að nýta sér í dag. Ég er viss um að þetta skilar sér til frambúðar og mun styrkja mikið umhverfi fyrir góða íþróttaþjálfun hér á landi. Það er ekki síst það sem drífur okkur áfram."

Minni fjárbinding Ármann Kr. Ólafsson, forseti bæjarstjórnar í Kópavogi, segir bæinn hafa ákveðið að kaupa mannvirkin, sem Knattspyrnuakademían ætlaði upphaflega að eiga, þar sem það var áætluð minni fjárbinding fyrir bæinn. Leigusamningar til 25 ára voru verðtryggðir og því ljóst að þeir hefðu orðið miklu hærri en reiknað hafði verið með, auk þess sem bærinn hefði ekki eignast byggingarnar að leigutíma liðnum. "Samkvæmt þeim greiningum sem við fengum í hendur var miklu hagstæðara fyrir bæinn að kaupa eignirnar heldur en að leigja þær, sem upphaflega var áformað. Kaupin fela því í sér minni fjárbindingu í þessum mannvirkjum en reiknað hafði verið með upphaflega. Að því leytinu til eru kaupin á mannvirkjunum hagstæðari fyrir bæinn en reiknað hafði verið með í upphafi," segir Ármann. Hann segir einnig að Kópavogsbær njóti góðs af því að hafa átt og rekið eignir með farsælum hætti. Ákveðin stærðarhagkvæmni geti náðst fram við stjórnun og viðhald með því að kaupa frekar en að leigja.