Íslensk knattspyrnufélög berjast ekki eingöngu um að sigra bikar- og íslandsmeistaratitla því fjögur efstu liðin fá þátttökurétt í evrópukeppnum. Nokkuð háar fjárhæðir fást fyrir árangurinn en sömu sögu er ekki að segja af íslenskum félagsliðum í handbolta og körfubolta.

Af þremur stærstu liðsíþróttunum hér á landi er knattspyrnan í algjörum sérflokki þegar kemur að fjárhagslegum burði alþjóðlegra og evrópskra íþróttasambanda. Evrópska knattspyrnusambandið (UEFA) styrkir bikarmeistara, Íslandsmeistara auk liða sem lenda í 2. og 3. sæti á Íslandsmóti karla til þátttöku í Evrópukeppnum. Að auki fá Íslandsmeistarar 200 þúsund evrur, jafnvirði rúmlega 30 milljóna íslenskra króna.

FIBA og IHF langt á eftir

Friðrik Ingi Rúnarsson, framkvæmdarstjóri körfuknattleikssambandsins (KKÍ), segir að ekkert lið fái styrk frá Alþjóðlega körfuknatt leikssambandinu (FIBA) til þátttöku á erlendum mótum. „Það hefur verið þannig að lið keppa að meðaltali erlendis á um 8 ára fresti. KR fór síðast út árið 2007 og voru þá Íslandsmeistarar og með gott lið,“ segir Friðrik Ingi. Hann segir að þegar lið hafi haldið góðum kjarna í nokkurn tíma og árangur verið góður þá langi menn að sjá hvar þeir standa miðað við erlend lið. „En hafi það verið erfitt fyrir gengisfall þá er það enn erfiðara í dag“.

Róbert Gíslason hjá Handknattleikssambandi Íslands (HSÍ) segir svipaða sögu af styrkjum til íslenskra félagsliða í handboltanum. Þar felur þátttaka einnig eingöngu í sér kostnað, ef litið er framhjá öðrum þáttum sem ekki eru metnir til fjár. Því má segja að íslensk handbolta- og körfuboltalið borgi til að taka þátt í Evrópukeppnum. „Við höfum áætlað að hver umferð í Evrópukeppni kosti lið um 2,5-3 milljónir,“ segir Róbert en íslenski handboltinn á 5 sæti í Evrópukeppni. „En vegna kostnaðar taka vanalega bara örfá lið þátt. Það er undir þeim komið að safna fjármagni og ef þau ætla að selja frá sér heimaleiki að ná hagstæðum samningum.“ Alls 4 íslensk handboltalið taka þátt í Evrópumótum í ár.

20 milljónir fyrir hverja umferð

Þau lið sem vinna sér rétt til þátttöku í forkeppni meistaradeildar í knattspyrnu fá greiddar 130 þúsund evrur, jafnvirði um 20 milljónir króna, fyrir hverja umferð frá UEFA. Þá fá lið sem keppa í Europa League 90 þúsund evrur, um 14 milljónir króna, fyrir hverja umferð. Að auki fá Íslandsmeistarar um 30 milljónir íslenskra króna.

-Nánar í Viðskiptablaðinu