MK One, tískuvörukeðjan, skuldar birgjum og lánveitendum sínum 50 milljónir sterlingspunda. Ráðgjafarfyrirtækið Deloitte & Touche hefur hinsvegar að sögn breska blaðsins The Daily Telegraph varað ótryggða lánveitendur MK One við því að þeir muni aðeins fá eitt pens af hverju pundi sem fyrirtækið skuldar þeim.

MK One var falið í hendur stjórnar skiptaráðenda í maímánuði, þremur vikum eftir að Baugur seldi meirihlutaeign sína til Hilco. Kaupandinn sérhæfir sig í umbreytingu á smásölukeðjum sem eiga í rekstrarerfiðleikum. Fram kemur í skýrslu Deloitte & Touche að tap á rekstri MK One fyrir skatta nam 20 milljónum punda á ársgrundvelli miðað við síðasta janúar. Hinsvegar jukust sölutekjur á tímabilinu og námu þær 123 milljónum punda en þær voru 118 milljónir árið þar á undan.