MP banki mun, í samstarfi við i8 Gallerí, bjóða upp á vaxtalaus listaverkalán til kaupa á samtímalist.

Þetta kemur fram í tilkynningu MP banka til viðskiptavina en þar segir að markmið samstarfsins sé að auka vitund og þekkingu á samtímalist og kynna listaverk sem fjárfestingarkost. Einungis er um að ræða frumsölu listaverka.

„Við merkjum aukinn áhuga og umfjöllun um myndlist, ekki síst í ljósi mikillar velgengni íslenskra myndlistarmanna erlendis,“ segir Ólafur Haraldsson, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs MP banka í tilkynningunni.

„Við viljum koma til móts við viðskiptavini okkar svo þeir geti með auðveldum hætti verið virkir þátttakendur í listamarkaðnum. Við teljum að þetta frumkvæði okkar geti gagnast virkum söfnurum og eins þeim sem eru að leggja í sín fyrstu listaverkakaup.“

Tilhögun lánanna verður þannig að lánstími er að hámarki 24 mánuðir. Lánið er sem fyrr segir vaxtalaust og lánshlutfall er að hámarki 75%. Lágmarksfjárhæð er 100.000 kr. og hámarksfjárhæð 1.500.000 kr. óháð kaupverði. Hægt verður að greiða lánið upp án kostnaðar auk þess sem engin lántökugjöld, stimpilgjald eða þinglýsingargjald fylgja láninu.

Verkin mega hins vegar ekki vera eldri en 60 ára við kaup og einungis er um að ræða frumsölu verka.