MP banki stefnir að því mæta kröfu Fjármálaeftirlitsins um aukið eigið fé fyrir árslok. Gunnar Karl Guðmundsson, forstjóri MP banka, segir í samtali við Viðskiptablaðið að hann geri ekki ráð fyrir öðru en að það muni ganga eftir. Hann segir að í því felist meðal annars að draga úr áhættu.

Í tilkynningu frá MP banki í gær kom fram að bankinn er fyrsti bankinn til að fara í gegnum innra mat á eiginfjárþörf í samstarfi við Fjármálaeftirlitið (FME). Gunnar segir að FME hafi nú skilað sínum niðurstöðum og bankinn fallist á hana. Næstu skref séu að auka eigið fé bankans, draga úr áhættu eða hvort tveggja.

Eftir fall bankanna herti FME skilyrði um eiginfjárhlutfall í 16%. Gunnar vildi ekki gefa upp hvert eiginfjárhlutfall bankans er en tók fram að það er yfir lögbundnu skilyrði, sem er 8%.

Viðskiptablaðið greindi frá því í ágúst að MP banki hyggst skipta bankanum í viðskiptabanka og fjárfestingabanka. Gunnar segir að fyrstu skrefin verði líklegast sú að taka út eignir sem tengjast fjárfestingabankastarfseminni og draga þannig úr áhættu. Hann telur að almennt verði þróunin sú meðal viðskiptabanka og þannig verði dregið úr áhættu þeirra.

Lausafjárstaða bankans er sú sterkasta meðal íslenskra innlánsstofnana, að því er kom fram í tilkynningu frá bankanum í gær. Aðspurður hvort mikið lausafé, sem ber jafnan lága vexti, sé ekki vandamál fyrir bankann segir Gunnar að við þá óvissu sem ríkir nú þá sætti bankastofnanir sig frekar við lága arðsemi og vera með trygga lausafjárstöðu heldur en að eiga á hættu að lausafé skorti.