Kauphallarfélagið NASDAQ OMX Group, sem rekur Kauphallir á Norðurlöndunum og Eystrasaltsríkjunum, hefur, ásamt Intercontinental kauphöllinni í Bandaríkjunum gert yfirtökutilboð í NYSE Euronext. Yfirtökutilboðið hljóðar upp á 42,5 dollara á hlut, sem er 19% hærra verð en Deutsche Boerse bauð í NYSE Euronext.

Páll Harðarson, forstjóri NASDAQ OMX á Íslandi, segir að ef af yfirtökunni verður hafi það jákvæð áhrif á hlutabréfaviðskipti hér á landi. Samruninn skapi einn stærsta kauphallarklasa heims og geri íslenskum fyrirtækjum auðveldara fyrir við kynningarstarf. „Með yfirtökunni myndu fleiri markaðir fara undir sama hatt og auka fjármagnsflæði, líka á Íslandi,“ segir Páll. Hann ítrekar, líkt og áður hafi verið haldið fram, að fyrirtækjum í Kauphöllinni muni fjölga á næstu mánuðum.