Nova tilkynnti í dag að fyrirtækið mun hefja ljósleiðaraþjónustu. Ljósleiðaraþjónusta Nova nýtir ljósleiðarakerfi Gagnaveitunnar og er kerfishraðinn allt að 500 Mb/s.

Í tilkynningu frá félaginu segir að Nova vilji með þessu styðja við breyttan lífsstíl viðskiptavina sinna. „Ljósleiðari hjá Nova er fyrir þá sem vilja öfluga háhraða nettengingu inn á nútímaheimilið, sleppa heimasíma og sjónvarpsboxi og horfa á sjónvarpið yfir netið,“ segir í tilkynningunni. „Sífellt stærri hópur fólks velur að horfa á sjónvarpið yfir netið og sleppa því að greiða fyrir áskrift að sjónvarpsþjónustu. Við mælum sérstaklega með Sarpinum hjá RÚV, Netflix og YouTube auk þess sem Apple TV og snjallsjónvörp einfalda áhorf yfir netið.“

Tvær áskriftarleiðir eru í boði. Þá er annars vegar hægt að fá 100 GB tengingu fyrir 7.260 kr. á mánuði og svo 1.000 GB tengingu á 9,260 kr. á mánuði.