Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur ákveðið að gera ekki kauptilboð í símafyrirtækið Telekom Srpske, samkvæmt upplýsingum frá félaginu.

Einkavæðingarnefnd Serbíu hefur verið falið að selja hlut 65% hlut ríkisins í fyrirtækinu og var Novator á meðal þeirra fyrirtækja sem keyptu útboðsgögn í tengslum við söluna, sem áætlað er að skili ríkinu um 400 milljónum evra, sem samsvarar um 34 milljörðum króna.

Telekom Srpske er staðsett er í Bosníu í héraðinu Srpske, sem stjórnað er af Serbíu. Tilboðsfresturinn rennur út í byrjun næsta mánaðar.

Samkvæmt heimildum fagritsins Telecom Finance eru líklegustu kaupendurnir nú Telekom Austria og norska símafyrirtækið Telenor. Einnig er talið að finnska símafyrirtækið Elisa, sem er að hluta til í eigu Novators, sé á meðal hugsanlegra kaupenda.

Líkt og Novator hefur ungverska símafyrirtækið Magyar Telekom ákveðið að gera ekki kauptilboð í Telekom Srpske.

Telekom Srpske er með um 35% markaðshlutdeild á landsíma- og farsímamarkaði í Bosníu. Tvö önnur símafyrirtæki eru í Bosníu. Stærsta félagið er BH Telecom, en símafyrirtækið HT Mostar er heldur minna en Telekom Srpske.

BH Telecom og HT Mostar eru stærst í króatíska hluta Bosníu, þar sem um 66% íbúa landsins býr. Einnig hefur verið rætt um að einkavæða BH Telecom.

Novator hefur lagt áherslu á fjárfestingar í símafélögum, sérstaklega í Mið- og Austur-Evrópu. Félagið hefur tryggt sér kaupréttinn að 65% hlut í búlgarska símafyrirtækinu Bulgarian Telecommunicatons Company (BTC), fjárfest í pólska símafyrirtækinu Netia og gríska fjarskiptafyrirtækinu Forthnet.

Tékkneska fjárskipatafyrirtækið Cescke Radiokommunicace (CRa) er í eigu Novators. CRa gerði tilraun til að kaupa 75% hlut ungverska ríkisins í margmiðlunarfyrirtækinu Antenna Hungaria í fyrra.