Ný samgöngumiðstöð höfuðborgarsvæðsins á lóð BSÍ kostar um 600 milljónir en endurbætur á núverandi húsnæði gætu kostað 470 milljónir. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu vinnuhóps um nýja samgöngumiðstöð Reykjavíkur sem kynnt var í umhverfis-og skipulagsráði. Fréttastofa Ríkisútvarpsins greinir frá.

Þar segir að í skýrslu vinnuhópsins komi fram að allt bendi til þess að núverandi bygging verði flöskuháls í þróun samgöngumiðstöðvar vegna smæðar. Þá er staðsetning hússins talin vera óhagkvæm. Fyrstu kannanir bendi til þess að ný samgöngumiðstöð þurfi að minnsta kosti einn hektara auk lands undir byggingu, en svæðið er nú fjórir hektarar.

Reykjavíkurborg keypti BSÍ og lóðina fyrir 445 milljónir um miðjan október í fyrra. Í nóvember var síðan skipaður vinnuhópur til að fara yfir hugmyndir um samgöngumiðstöð á lóðinni og er skýrslan afrakstur þess starfs.