Nýherji hefur selt danska þjónustufyrirtækið Dansupport til fjarskipta- og upplýsingatæknifélagsins Jansson Kommunikation A/S. Dansupport sérhæfir sig í innviðum upplýsingakerfa, samþættum samskiptum (Unified Communications) og þróun á lausnum fyrir IP símtækni. Um 30 manns vann hjá félaginu í fyrra. Nýherji gefur ekkert upp um hvert verðið var í viðskiptunum en segir í tilkynningu að salan muni hafa óveruleg áhrif á niðurstöðu rekstrar- og efnahagsreiknings Nýherja fyrir síðasta ár. Á sama tíma mun salan treysta lausafjárstöðu fyrirtækisins og skerpa áherslur.

Fram kemur í tilkynningu frá Nýherja að Dansupport var stofnað árið 1987 og varð fyrirtækið hluti af Nýherjasamstæðunni árið 2007. Tekjur Dansupport á árinu 2012 voru um 50 milljónir danskra króna.

Endurskilgreina áherslur Nýherja

Haft er eftir Finni Oddssyni, forstjóra Nýherja, í tilkynningu að á síðustu mánuðum hafi verið unnið að stefnumótun og endurskilgreiningu á megináherslum samstæðu Nýherja. Markmiðið með slíkri vinnu sé að skapa skarpari sýn á grunnstoðir félagsins og þá markaði, viðskiptavini og lausnir sem áhersla verður lögð á til næstu ára. „Sala á Dansupport er í takt við breyttar áherslur sem vænta má í starfsemi Nýherja, sem munu miða að því að efla þjónustu- og lausnaframboð á sviði upplýsingatækni á íslenskum fyrirtækjamarkaði,“ segir hann.