Stærstu lánardrottnar Sparisjóðs Mýrasýslu (SPM) samþykktu tillögu að fjárhagslegri endurskipulagningu SPM 27. mars síðastliðinn.

Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu SPM og Nýja Kaupþings en SPM hafði í kjölfarið frumkvæði að því að ganga til samninga við Nýja Kaupþing til að tryggja áframhaldandi þjónustu við viðskiptavini sjóðsins.

Á grundvelli samkomulagsins við stærstu lánardrottna hefur SPM selt eignir sínar til Nýja Kaupþings. Í tilkynningunni kemur fram að bankinn mun greiða fyrir eignirnar með skuldabréfi og útgáfu nýrra hluta í samræmi við þá tillögu sem stærstu lánardrottnar hafa samþykkt.

Samhliða þessu eignast Nýja Kaupþing allt stofnfé í SPM. Samningurinn er háður endanlegu samþykki Fjármálaeftirlitsins.

Stefnt að sameiningu útibúa Nýja Kaupþings og SPM í Borgarnesi

Fram kemur að með kaupunum yfirtekur Nýja Kaupþing allar eignir og skuldir SPM, þar með talin innlán, sem eru að fullu tryggð. Nýja Kaupþing tekur við rekstri afgreiðslu SPM í Borgarnesi. Stefnt er að sameiningu útibúa Nýja Kaupþings og SPM í Borgarnesi á næstu vikum. Bernhard Þór Bernhardsson sparisjóðsstjóri SPM tekur við sameinuðu útibúi SPM og Nýja Kaupþings.

Jafnframt mun Nýja Kaupþing eignast dótturfélög SPM, þar með talið Afl Sparisjóð og Sparisjóð Ólafsfjarðar. Samkvæmt tilkynningunni er stefnt að rekstri þeirra í óbreyttri mynd.

„Sparisjóður Mýrasýslu hefur átt í miklum fjárhagsörðugleikum undanfarin misseri. Með þessu næst farsæl lausn á vanda hans sem lánardrottnar, viðskiptavinir, starfsfólk og aðrir hagsmunaðilar geta verið sáttir við,“ segir í tilkynningunni.   „Þá er ekki lengur þörf á eiginfjárframlagi frá ríkissjóði eins og sparisjóðurinn hefur kost á samkvæmt neyðarlögunum.“