Nýr fimm milljarða króna áhættufjárfestingarsjóður - Brú II - hefur tekið til starfa. Sjóðurinn sem rekinn verður af Brú Venture Capital verður stærsti áhættufjárfestingarsjóður landsins. Forsvarsmenn Brú Venture Capital hyggjast þó ekki láta þar staðar numið og stefna á að koma sjóðnum upp í 7 til 10 milljarða króna.

Í ítarlegu viðtali, sem birtist í Viðskiptablaðinu í dag, við Gísla Hjálmtýsson framkvæmdatjóra Brú Venture Capital kemur fram að sjóðurinn er þegar byrjaður að leita að fjárfestingarverkefnum innanlands sem utan. Hann sagði of snemmt að segja nokkuð um hvaða fyrirtæki sjóðurinn væri að skoða. "Við erum með nokkur tækifæri sem eru komin í samningaferli og okkur finnast spennandi."

Sjóðurinn mun ekki fjárfesta í algjörlega nýjum fyrirtækjum heldur koma inn þegar fyrirtækið hefur tekið á sig mynd og er komið með vöruna í hendurnar. "Þegar viðskiptahugmyndin er komin það langt að fyrirtækið hefur myndast vaknar okkar áhugi. Við viljum taka við fyrirtækjum sem eru komin á það stig að þau eru tilbúin að nota fjármagnið til þess að vaxa hratt."

Sprotafjármögnun á Íslandi hefur verið hvorki fugl né fiskur undanfarin ár en Gísli sagði vonir standa til að það breytist með tilkomu sjóðsins. "Ein ástæða fyrir því að svona öflugur sjóður hefur ekki verið til á undanförnum árum er að menn hafa ekki viljað setja pening í áhættufyrirtæki."

Þeir sem standa að fjárfestingarloforðum sjóðsins, sem verða innheimt eftir því sem þurfa þykir, eru í dag annars vegar Straumur - Burðarás og hins vegar stærstu lífeyrissjóðir landsins. Þetta eru Lífeyrissjóður Verslunarmanna, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Gilding.

Sjá nánar Viðskiptablaðið bls. 10-11 í dag