Frumhönnun og kostnaðargreiningu vegna byggingar nýs Laugardalsvallar er lokið. Í október á síðasta ári ákváðu Knattspyrnusamband íslands (KSÍ), borgaryfirvöld og menntamálaráðuneytið að verja 21 milljón króna í þessa vinnu. Skýrslan er komin í hendur þessara aðila en hún hefur ekki verið gerð opinber.

Næsta skref er að kanna nákvæmlega hver verður aðkoma hagsmunaaðila að byggingu vallarins og klára hönnun hans. Þessi vinna ætti að ekki að taka meira en þrjá mánuði og þá loks verður hægt að taka endanlega ákvörðun um framtíð Laugardalsvallar.
Frumhönnunin sneri að því að hanna hvert rými en ekki endanlegt útlit vallarins. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins voru þrjár útfærslur skoðaðar í kostnaðargreiningunni.

Dýrasta útfærslan

Dýrasta útfærslan er 20 þúsund manna völlur með færanlegu þaki þannig að hægt sé að loka alveg vellinum. Kostnaður við slíka framkvæmd er talinn nema ríflega sjö milljörðum króna.

Næst dýrasta útfærslan er 20 þúsund manna völlur sem er annaðhvort yfirbyggður eða ekki, sem sagt ekki færanlegt þak. Ódýrasta lausnin er 15 til 16 þúsund manna völlur með hefðbundinni stúku. Kostnaður við ódýrustu lausnina er tæplega fjórir milljarðar.

Ef farin verður sú leið að hafa völlinn yfirbyggðan þá mun hann rúma allt að 28 þúsund tónleikagesti en stærstu poppstjörnur heims gera nánast undantekningarlaust kröfu um að tónleikastaðir rúmi 25 þúsund manns.

Einnig hafa verið uppi hugmyndir um að byggja hótel samhliða nýjum velli og hafa rými fyrir ýmiss konar þjónustu eins og til dæmis verslanir og veitingastaði. Einnig hefur komið til tals að hafa einhvers konar háskólastarfsemi í byggingum vallarins. Ekkert af þessum möguleikum voru inni í kostnaðargreiningunni heldur var einungis verði að skoða sjálfan knattspyrnuvöllinn.

Eignarhaldið

Í dag er eignarhald Laugardalsvallar þannig að KSÍ á tvær hæðir í nýju stúkunni en Reykjavíkurborg á völlinn að öðru leyti. Reykjavíkurborg á um það bil 80% og KSÍ 20%. Aðkoma ríkisins að verkefninu er háð því að Laugardalsvöllur verði skilgreindur sem þjóðarleikvangur og ef það verður gert mun eignarhaldið breytast. Þá hafa einnig verið uppi hugmyndir um að fá einkaaðila til að koma að uppbyggingunni en engin ákvörðun um slíkt hefur verið tekin.

Öll undirbúningsvinna hefur verið unnin af ráðgjafarfyrirtækinu Borgarbrag, sem er í eigu Péturs Hafliða Marteinssonar og Guðmundur Kristjáns Jónssonar. Borgarbragur hefur unnið náið með franska fyrirtækinu Lagardère Sport.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .