Kim Jong Un, nýr leiðtogi Norður-Kóreu, er sagður taka við verra búi en faðir hans þegar Kim Jong il tók við völdum að föður sínum gengnum árið 1994.

Erlendum fjölmiðlum hefur verið tíðrætt um Kim Jong Un nú þegar liggur fyrir að hann tekur við embætti leiðtoga Norður-Kóreu eftir föður sinn sem sagður er hafa látist á laugardag.

Breska útvarpið, BBC, hefur eftir suður-kóreskum sérfræðingi í varnarmálum, að leiðtoginn, sem er öðru hvoru megin við þrítugt - BBC segir reyndar 27 eða 28 ára - taki við verra búi en faðir hans á sínum tíma. Hagkerfi landsins sem mun verra statt nú en þá auk þess sem óvíst sé hvert bakland hins unga leiðtoga sé. Þá segir BBC Kim Jong Un ekki byggja á þeirri reynslu sem faðir hans hafði og skorti föðurlandsímyndina. Íbúar og umheimurinn fékk ekki að kynnast Kim Jong Un fyrr en hann kom opinberlega fram í fyrrahaust og hefur hann því fengið eitt til tvö ár til að undirbúa sig formlega fyrir embættið. Til samanburðar var byrjað að búa Kim Jong il undir stjórnarskipti árið 1980 og var hann kominn efst í goggunarröðina í mörgum opinberum embættum þegar stundin rann loksins upp fjórtán árum síðar. Þá var hann 52 ára.

BBC bendir á að á hinn bóginn verði að telja Kim Jong Un það til tekna hversu líkur hann er afa sínum, Kim il-sung, sem nýtur þess vafasama heiðurs að hafa einangrað Norður-Kóreu og lokað íbúa þess af frá umheiminum.

Þjóðarframleiðsla í Norður-Kóreu er að meðaltali 1.200 bandaríkjadalir á ári, jafnvirði 147 þúsund króna, auk þess sem talið er að fjórðungur landsmanna búi við skort á helstu nauðsynjum, svo sem mat.