Nýtt skipurit Tryggingamiðstöðvarinnar var kynnt starfsfólki félagsins í morgun. Skipuritið er afrakstur skipulagsvinnu sem lykilstarfsmenn félagsins hafa unnið að á síðustu mánuðum. Samhliða gildistöku nýs skipurits hefja störf hjá félaginu þrír nýir framkvæmdastjórar. Þetta eru þeir Björn Víglundsson, Ágúst H. Leósson og Pétur Pétursson. Auk þeirra skipa framkvæmdastjórn Tryggingamiðstöðvarinnar þeir Guðmundur Gunnarsson, Hjálmar Sigurþórsson, Ingimar Sigurðsson og Óskar Magnússon, forstjóri Tryggingamiðstöðvarinnar.

Samkvæmt nýju skipurit fer vátrygginga- og fjármálaþjónusta félagsins fram á einu sviði undir framkvæmdastjórn Björns Víglundssonar. Björn veitir auk þess einstaklingsþjónustu forstöðu en Ingimar Sigurðsson, sem starfað hefur hjá félaginu um langt árabil, veitir fyrirtækjaþjónustu og samskiptum við endurseljendur forstöðu. Endurtryggingar eru einnig á starfssviði Ingimars. Þá er framkvæmdastjórn fjármálasviðs í höndum Ágústs H. Leóssonar. Tjónaþjónusta lýtur framkvæmdastjórn Hjálmars Sigurþórssonar, en hann var áður deildarstjóri tjónadeildar félagsins. Rekstrarsvið er nýtt svið í skipuriti félagsins en Guðmundur Gunnarsson er framkvæmdastjóri þess. Guðmundur stýrði síðast upplýsingatæknideild Trygginga­miðstöðvarinnar. Fjárfestingarsvið er einnig nýtt svið í skipuriti félagsins en því er stýrt af forstjóra. Pétur Pétursson veitir upplýsinga- og kynningarmálum framkvæmdastjórn auk þess að sinna sérverkefnum á skrifstofu forstjóra. Loks er innra eftirlit gert að sérstöku sviði undir forstöðu Ragnars Þ. Ragnarssonar, en hann var áður deildarstjóri hagdeildar félagsins.

Það er mat stjórnenda félagsins að nýtt skipurit sé liður í að gera félagið betur í stakk búið að mæta breyttum aðstæðum og efla sókn þess á markaði. Auk þess mun það leiða til skýrari verkaskiptingar og ábyrgðar en áður.

Nýráðnir framkvæmdastjórar eru:

Björn Víglundsson starfaði frá árinu 1996 til 2005 hjá P. Samúelssyni hf., umboðsaðila Toyota á Íslandi, fyrst sem auglýsingastjóri, síðan markaðsstjóri og var framkvæmdastjóri markaðssviðs frá árinu 2001. Þá var hann um skeið sölustjóri hjá Ármannsfelli. Björn lauk prófi árið 1995 í viðskiptafræði með áherslu á markaðsfræði og stjórnun frá University of Tampa í Flórída.

Ágúst H. Leósson var fjármálastjóri Actavis frá árinu 2003 til 2005 og þar áður var Ágúst fjármálastjóri Delta og aðstoðarfjármálastjóri Pharmaco. Þá starfaði Ágúst sem aðalbókari Haraldar Böðvarssonar um þriggja ára skeið og starfaði hjá Deloitte í sjö ár. Ágúst lauk prófi í viðskiptafræði frá endurskoðunarsviði Háskóla Íslands árið 1991.

Pétur Pétursson, var forstöðumaður upplýsinga- og kynningarmála Og fjarskipta hf. og áður Íslandssíma frá árinu 2000 til 2005 og bar þar m.a. ábyrgð á samskiptum við fjölmiðla, fjárfesta, Kauphöll Íslands auk þess að sinna sérverkefnum. Pétur starfaði árin 1999 til 2000 sem ráðgjafi í almannatengslum fyrir fjölmörg fyrirtæki og stofnanir. Áður var Pétur í tæplega áratug fréttamaður á ýmsum fjölmiðlum, þ.á.m. DV, Ríkisútvarpinu og fréttastofu Stöðvar2/Bylgjunnar. Pétur lauk BA prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1992.