Breytingar hafa verið gerðar á skipuriti SPRON með það fyrir augum að einfalda skipulag félagsins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá SPRON en þar kemur einnig fram að undanfarna mánuði hefur verið unnið að endurskipulagningu á starfsemi SPRON til þess að mæta breyttum aðstæðum í íslensku efnahagslífi.

Sviðum félagsins hefur verið fækkað í tvö, SPRON sparisjóð og fjárhagssvið.

Aðrar helstu breytingar á skipulagi félagsins er að fjárstýring verður lögð niður sem sérstakt svið og starfsemi þess færð undir Fjárhagssvið.

Ósvaldur Knudsen framkvæmdastjóri fjárstýringar verður með breytingunni nú forstöðumaður fjárstýringar.

Áhættustýring verður ennfremur færð undir Fjárhagssvið og verður Páll Árnason áfram forstöðumaður áhættustýringar. Valgeir M. Baldursson er framkvæmdastjóri fjárhagssviðs.

Þjónustusvið verður lagt niður og hluti starfseminnar færð undir Mannauð og rekstur og hluti undir SPRON sparisjóð.

Harpa Gunnarsdóttir verður framkvæmdastjóri Mannauðs og reksturs en hún var framkvæmdastjóri þjónustusviðs áður. Ólafur Haraldsson verður framkvæmdastjóri SPRON sparisjóðs eins og áður.

Upplýsingatæknisvið verður lagt niður og verða verkefni sviðsins færð undir Mannauð og rekstur að hluta og SPRON sparisjóð að hluta. Ólafur Haraldsson framkvæmdastjóri SPRON sparisjóðs gegndi stöðu framkvæmdastjóra upplýsingatæknisviðs fyrir breytingarnar.

Starfsemi Netbankans verður óbreytt en Geir Þórðarson framkvæmdastjóri Netbankans mun hætta hjá Netbankanum samhliða þessum breytingum og hefja störf hjá SPRON sparisjóði. Sævar Þórisson tekur við starfi framkvæmdastjóra Netbankans en hann var áður markaðsstjóri Netbankans.

Unnið er að endurskoðun á starfsemi Frjálsa fjárfestingabankans og SPRON verðbréfa með það að markmiði að ná fram frekari hagræðingu með samþættingu verkefna milli félaganna og SPRON.

Kristinn Bjarnason er framkvæmdastjóri Frjálsa Fjárfestingabankans og Björg Kristinsdóttir er framkvæmdastjóri SPRON verðbréfa.