Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði á Sprengisandi í morgun, að þjóðaratkvæðagreiðslur um Icesave hefðu gefið Íslendingum lýðræðislegt sjálfstraust á nýjan leik. Það ætti við sama hvað mönnum finndist um efnislega niðurstöðu Icesave. Það væri gríðarlega mikilvægt nú. Hrunið á árinu 2008 hefði ekki einungis verið efnahagslegt hrun heldur hefði sjálfsmynd þjóðarinnar líka hrunið.

Ólafur sagði að umræðan hefði endurvakið sjálfstraust þjóðarinnar sem nú gæti staðið upprétt. Það væri mikilvægt til að geta mætt mikilvægum málum sem framundan eru, eins og að vera með eða á móti ESB eða taka þátt í mótun stefnu um norðurslóðir.

Forsetinn sagði að umræðan núna hefði verið efnisríkari og fjölbreyttari en hann hefði kynnst áður. Alls konar fólk hefði tekið þátt og ungt fólk aflað sér upplýsinga á netinu. Þótt það hafi vissulega hvesst í umræðunni hafi hún skapað ný viðmið fyrir stjórnmálaumræðuna í framtíðinni.

Ólafur sagði að vika væri liðin frá þjóðaratkvæðagreiðslunni og samfélagið væri rólegt. Ekki að allt væri fallið í ljúfa löð en menn heilsi enn hver öðrum. Það eigi líka við um alþjóðasamfélagið. Það hefðu ekki margir erlendir fjölmiðlar haft sambandi, sem betur fer sagði forsetinn, og það sýndi að málið vekur ekki jafn hörð viðbrögð og fyrir ári síðan. Það væri ró yfir málinu á erlendum vettvangi.