Stjórn Sláturfélags Suðurlands (SS) hefur lagt til fyrir næsta aðalfund sem boðaður er eftir hálfan mánuð að þeir sem eigi B-deild hlutabréfa félagsins fái greiddar samtals rúmar 30,4 milljónir króna í arð vegna afkomunnar í fyrra. Hagnaður SS á síðasta ári nam tæpum 1,2 milljörðum króna sem var rúmlega sex sinnum betri afkoma en árið 2010.

Eigendur A-deildar hlutafjárins eru með atkvæðarétt á stjórnar- og aðalfundum en eigendur B-deildar ekki.

Verðbréfafyrirtækið Virðing er helsti hluthafi SS með 31,75% hlut. Samkvæmt því falla tæpar 9,7 milljónir króna til þess af arðinum.

Næststærsti hluthafi SS er Ólafur Ívan Wernersson, bróðir þeirra Karls og Steingríms Wernerssona, helstu eigenda fjármálafyrirtækisins Milestone og tryggingafélagsins Sjóvár fyrir hrun, og athafnakonunnar Ingunnar Wernersdóttur. Hann á nú 22,75% hlut í SS og fær samkvæmt því 6,9 milljónir króna arðgreiðslu.

Ólafur hefur átt B-hlutabréf í SS um árabil. Hann átt þegar mest var 55% hlut í félaginu árið 2005 þegar hann keypti 29,45% hlut af Frjálsa fjárfestingabankanum á rúmar 106 milljónir króna og 15,14% hlut af Guðmundi Alberti Birgissyni frá Núpum fyrir rúmar 55 milljónir. Bréfin voru keypt á genginu 1,80 krónur á hlut á sínum tíma.

B-deild hlutafjár SS er skráð á First North-markaðinn í Kauphöllinni. Markaðsverðmæti hlutafjárins þar er 190 milljónir króna. Eignahlutur Virðingar nemur samkvæmt því 60 milljónum króna en Ólafs Wernerssonar 43,2 milljónum króna.

Aðrir stóri hluthafar eru SS, með tæpan 10% hlut, Festa-lífeyrissjóður og VÍS. Fimmtán aðrir hluthafar eiga rétt rúm 1% og minna.

Fram kemur í tillögum stjórnar fyrir aðalfundinn að stefnt sé að lækkun hluta í B-deild stofnsjóðs félagsins með skipulegum kaupum á hlutum í B-deild stofnsjóðs og niðurfærslu þeirra hluta í kjölfarið, sem hugsanlega taki til allra hluta í B-deild stofnsjóðs. Miðað er við gengið 1,05 krónur á hlut í kaupunum.