Verð hráolíu setti met í New York í dag eftir að forseti OPEC, Purnomo Yusgiantoro, sagði að samtökin gætu ekki aukið olíuframboð sitt nægilega hratt til þess að lækka verð. Hluti hækkunarinnar gekk að vísu til baka eftir að embættismaður í olíuráðuneyri Saudi Arabíu sem vildi ekki nafns sín getið sagði að landið gæti aukið framleiðslu sína undir eins um 500.000 tunnur á dag, eða í 10 milljónir tunna og meira ef þess krefðist.

Í Hálffimm fréttum KB banka kemur fram að verðið á tunnu af Brent hráoliu í New York hækkaði um allt að 42 sent, eða 1%, í $44,24 sem er hæsta verð innan dags síðan að byrjað var að versla með framtíðarsamninga árið 1983.

Aðvörun til ríkisstjórnar Bandaríkjanna í gær þess efnis að al-Qaeda samtökin hyggist sprengja fjámálamiðstöðvar í New York, Washington og New Jersey hefur væntanlega hjálpað til við hækkanir olíuverðs. Olíuverð hefur hækkað um rúmlega 30% frá áramótum þar sem miklar áhyggjur af hryðjuverkum og vaxandi eftirspurn hefur haft töluvert að segja. "Í síðustu viku hækkaði olíuverð að vísu vegna ótta yfir að skattaskuld gæti leitt olíufyrirtækið Yukos, sem er stærsti olíuútflytjandi Rússlands, í gjaldþrot. Forstrjóri Statoil ASA, sem er stærsta olíufyrirtækið í Noregi, spáir því að olíuverð muni haldast hátt út árið en að verðið verði samt sem áður í við lægra á seinni árshelmingi en þeim fyrri.

Hagfræðingar hafa bent á að þróuð lönd, einsog Bandaríkin, noti nú minna magn af olíu á hverja einingu vergrar landsframleiðslu en þau gerðu fyrir nokkrum áratugum. Þá hafa þeir bent á að þegar olíuverð hefur verið leiðrétt fyrir verðbólgu sé það langt frá því að vera hæst allra tíma. Til að mynda kostaði tunnan af Saudi Arabískri léttri hráolíu $38 árið 1981 sem jafngildir $80 í dag," segir í Hálffimm fréttum.