Ómar Ragnarsson, kvikmyndagerðarmaður og fyrrverandi fréttamaður hjá Ríkissjónvarpinu hlýtur Seacology umhverfisverndarverðlaunin árið 2008.

Ómar hlýtur verðlaunin „fyrir baráttu sína gegn eyðileggingu á náttúru á hálendi Íslands. Verðlaunin hlýtur Ómar fyrir að hafa vakið almenning til vitundar um risavaxnar virkjanaframkvæmdir á hálendi Íslands og þau umhverfisspjöll sem stíflugerð og uppistöðulón til að knýja álver Alcoa á Reyðarfirði hafa valdið,“ að því er segir í fréttatilkynningu frá Seacology á Íslandi.

Í tilkynningu Seacology segir einnig að efnahagslegur ávinningur Íslands af þessum frmakvæmdum sé lítill en gríðarstór svæði ósnortinnar náttúru hafi verið eyðilögð. Því sé Ómar Ragnarsson hetja í umhverfismálum á Íslandi.

Seacology verðlaunin hafa verið veitt árlega síðan 1992 til einstaklinga um allan heim. Ómar er fyrstur til að hljóta verðlaunin fyrir umhverfisvernd í Evrópu.

Ómar mun veita verðlaununum formlega viðtöku í San Fransisco, Bandaríkjunum, 2. október næstkomandi.