OMX eykur við þjónustu sína í beinlínudreifingu (e. wire distribution) á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum.  Beinlínudreifingin veitir félögum í viðskiptum á Nordic Exchange einstaka möguleika á því að ná til allra fréttastöðva á Norðurlöndunum, þ.m.t. Noregi, sem og í Eystrasaltsríkjunum. Þessi nýja þjónusta tryggir að tilkynningar skráðra félaga nái til ritstjórnarkerfa í átta norrænum og baltneskum ríkjum og er skref  í frekari vöruþróun Fréttaþjónustu Nordic Exchange.

Í tilkynningu frá OMX segir að beinlínudreifingin sé viðbótarþjónusta sem nær til ritstjórnarkerfa allra helstu fréttastöðva á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum um samtengingakerfi, þar sem samfellt ferli gagnameðhöndlunar fer fram (e. straight through processing). Beinlínudreifingin eflir Fréttaþjónustu Nordic Exchange, sem yfir 800 félög í viðskiptum á Nordic Exchange nota. Fréttaþjónustan er fyrsta fréttamiðlunin sem býður upp á þessa þjónustu í samvinnu við Ritzau News Agency í Danmörku, Tidningarnas Telegrambyrå (TT) í Svíþjóð, STT í Finnlandi, Norsk Telegrambyrå (NTB) í Noregi og Baltic News Service (BNS) í Eystrasaltsríkjunum.

„Það er Nordic Exchange afar mikilvægt að geta boðið viðskiptavinum sínum eins mikinn sýnileika og kostur er á, bæði á fjármálamarkaðnum og í fjölmiðlum. Þar sem Fréttaþjónusta Nordic Exchange er orðinn markaðsleiðandi á norræna-baltneska svæðinu hefur okkur tekist að útvíkka dreifingarkerfi okkar þannig að það nái til allra þekktra og áreiðanlegra fréttastöðva í viðkomandi löndum,“ segir Hans-Ole Jochumsen, forstjóri OMX Information Services & New Markets.

„Frá því að gagnsæistilskipun ESB var innleidd á síðastliðnu ári hefur mikil breyting átt sér stað hvað varðar dreifingarstarfsemi. Við erum því afar stolt af því að vera fyrsti dreifingaraðilinn á Norðurlöndunum sem er í stakk búinn til að gera 800 félög sem eru í viðskiptum í Nordic Exchange fullkomlega sýnileg um netkerfi fréttastöðvanna í þessum löndum. Beinlínuþjónustan er algjörlega samþætt dreifingartækinu okkar til að fagfólk á samskiptasviði hafi sem þægilegast og traustast aðgengi að öflugustu fjölmiðlunum á öllum norræna-baltneska markaðnum,“ segir Hans-Ole Jochumsen.

Þjónustan um beinlínudreifingu hefur verið þróuð í náinni samvinnu við leiðandi fréttastöðvar á svæðinu til að tryggja að ritstjórnarkerfin taki á móti fréttunum og þær berist til viðkomandi blaðamanns á faglegan hátt. Búið er að undirrita alla samninga og þjónustan stendur nú öllum félögum sem tekin hafa verið til viðskipta í OMX Nordic Exchange til boða.