Össur hf. tilkynnti í dag áætlanir um endurskipulagningu á hluta af starfsemi félagsins í Norður Ameríku sem felur í sér að 80 manns verður sagt upp og starfsstöðvum lokað og þær sameinaðar.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar kemur fram að endurskipulagningin er þáttur í samþættingaráætlun félagsins í kjölfar kaupanna á stuðningstækjafyrirtækjunum Royce Medical og Innovation Sports í Bandaríkjunum.

Helstu breytingar sem áætlaðar eru árið 2006 eru eftirfarandi:
· Lokun á starfsstöð félagsins í Bothell, Washington

· Útvistun á fjöldaframleiddum spelkum og stuðningsvörum frá Norður Ameríku til Asíu

· Flutningur á starfsstöð félagsins í Kanada í minna húsnæði

· Framleiðsla sérgerðra hnjáspelkna í Bandaríkjunum sameinuð í Foothill Ranch, Kaliforníu

· Starfsstöðvar Jerome Medial og Philadelphia Collar sameinaðar í Thorofare, New Jersey og dreifingarmiðstöð fyrir austurströnd Bandaríkjanna sett upp á sama stað.

Í kjölfar endurskipulagningarinnar verður starfsmönnum Össurar í Norður Ameríku fækkað um u.þ.b. 80. Félagið leggur áherslu á að veita fráfarandi starfsmönnum stuðning við umbreytingarnar, meðal annars í formi faglegrar ráðgjafar um starfsskipti segir í tilkynningu félagsins.

Þar kemur einnig fram að gert ráð fyrir að samþætting og endurskipulagning skili rekstrarhagræði frá árinu 2007.