Lífeyrissjóðirnir benda á það í frétt á heimasíðu sinni að innlausn verulegs hlutfalls lífeyrissparnaðar á skömmum tíma geti orsakað verðlækkun á þeim verðbréfum sem sparnaðurinn er bundinn í.

Eins var bent á að verulegur hluti lífeyrissparnaðar væri ávaxtaður í innlánum, þau myndu því lækka sem næmi innlausn sparnaðarins.

Í verkefnaskrá ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna, sem kynnt var í gær, segir m.a. að sett verði lög um séreignarsparnað sem veita sjóðfélögum tímabundna heimild til fyrirframgreiðslu úr séreignarsjóðum til að mæta brýnum fjárhagsvanda.

Þessi hugmynd, sem nú er orðin komin á verkefnaskrá nýrrar ríkistjórnar er ekki ný af nálinni og var m.a. lagafrumvarp í undirbúningi hjá fyrri ríkisstjórn í þessa veru.

Lífeyrissjóðirnir benda á að í þessu sambandi er vert að geta þess að á fundi fjármálaráðuneytisins með fulltrúum Landssamtaka lífeyrissjóða þann 16. janúar sl., gerði ráðuneytið LL grein fyrir hugmyndum um að opna fyrir útgreiðslu lífeyrissparnaðar í séreign.

Fulltrúar LL töldu að varhugavert væri að rýmka reglur um útgreiðslu lífeyrissparnaðar frá því sem nú er. Slík ráðstöfun væri til þess fallin að grafa undan stoðum núverandi fyrirkomulags lífeyrismála með þeim afleiðingum að vikið yrði frá því markmiði að hver kynslóð stæði að meginstefnu til undir kostnaði vegna ellilífeyris sinnar kynslóðar.

Þá gæti innlausn verulegs hlutfalls lífeyrissparnaðar á skömmum tíma orsakað verðlækkun á þeim verðbréfum sem sparnaðurinn er bundinn í. Eins var bent á að verulegur hluti lífeyrissparnaðar væri ávaxtaður í innlánum, þau myndu því lækka sem næmi innlausn sparnaðarins.