Óvæntur halli varð á vöruskiptum Kínverja við útlönd í mars, samkvæmt opinberum gögnum sem birt voru í dag. Hallinn nam 880 milljónum dala, jafnvirði 104 milljarða íslenskra króna. Þetta er talsverður viðsnúningur frá fyrri mánuði þegar afgangur af vöruskiptum nam 15,3 milljörðum dala.

Netmiðillinn Marketwatch segir breytinguna skýrast af auknum innflutningi Kínverja í mánuðinum. Í febrúar dróst hann hins vegar talsvert saman eða um 15%.

Marketwatch bendir hins vegar á að óvíst sé hvort þetta séu endanlegar tölur enda hafi verið uppi efasemdir um það hvort stóla megi á þessar opinberu tölur. Svo virðist nefnilega sem Kínverjar hafi viljandi ýkt upplýsingar um vöruútflutning.