Verktakafyrirtækið KNH á Ísafirði sagði á dögunum upp tæplega 70 af um 90 starfsmönnum sínum. Var líka gripið til slíkra uppsagna í fyrrahaust en endurráðið var þegar úr verkefnum rættist. Sævar Óli Hjörvarsson, einn af eigendum KNH, segir að ástæður uppsagnanna nú sé verkefnaskortur, en fyrirtækið hefur unnið að vegagerð í Vopnafirði, við Raufahöfn og við Suðurstrandarveg.

Þau verkefni eru langt komin og verður lokið með lagningu slitlags sumarið og haustið 2011. "Það klárast allt í haust sem hægt er að gera fyrir veturinn. Við vonumst þó til að fá eitthvað að gera þannig að við getum ráðið marga starfsmenn aftur. Maður veit samt ekkert hvað verður og við verðum því að undirbúa okkur undir að ekkert verði að gera."