Penninn hefur selt 18 sveitarfélögum námsgögn fyrir grunnskólanemendur að upphæð um það bil 85 milljónir króna, að því er fram kemur í tilkynningu frá ritfangaversluninni.

Samningana fékk fyrirtækið í örútboðum á vegum Ríkiskaupa undanfarnar vikur, og hefur í kjölfarið afhent rúmar 650 þúsund ritfangaeiningar, „allt frá áherslupennum til yddara“.

Nánar tiltekið voru samtals afhentir tæpir 6.500 blýpakkar, um 50.000 stykki af strokleðrum, tæpur rúmmetri, og rúm 26.000 stykki af límstifti, tæp 500 kg.

Þá lýsir félagið yfir ánægju með að meirihluti sveitarfélaganna hafi valið vörur frá Múlalundi, vinnustofu SÍBS, og þannig styrkt íslenska framleiðslu og skapað störf fyrir fólk með skerta starfsorku.

Sveitarfélögin 18 eru Hafnarfjörður, Garðabær, Kópavogur, Reykjanesbær, Garður, Akureyri, Ísafjarðarbær, Hornafjörður, Fjallabyggð, Grundarfjörður, Fjarðarbyggð, Þingeyjarsveit, Vesturbyggð, Sandgerði, Norðurþing, Vestmannaeyjar, Skagafjörður og Grímsnes- og Grafningshreppur.