Það ætti að vera hægt að koma með góðu móti 45 hótelherbergjum fyrir í húsi Reykjavíkurapóteks, að mati Helga S. Gunnarssonar, forstjóra fasteignafélagsins Regins. Hann býst við því að Reginn muni auglýsa eftir samstarfsaðilum um rekstur í húsinu strax í næstu viku. Reginn skrifaði í gær undir kauptilboð á húsinu en Karl Steingrímsson hefur átt það í um árabil.

Helgi segir mest borðleggjandi að hótel verði á efri hæð hússins og svo verði einhverskonar veitingastaður á neðri hæðinni. „Þetta er náttúrlega frábærlega staðsett til að ná til gangandi traffík í miðbænum,“ segir Helgi í samtali við VB.is

Helgi telur að hægt sé að byggja 45-47 herbergi. „101 hótel er með 48,“ segir Helgi til samanburðar.  „Kannski getum við teygt okkur upp í fimmtíu,“ bætir hann síðan við. Reykjavíkurapótek gæti líka orðið góð eining með einhverju öðru.

Helgi segir að Reginn hafi fengið margar hringingar frá áhugasömum aðilum sem vilja byggja upp starfsemi í húsinu með þeim. En við ætlum að gera húsið flott, taka það í gegn að utan og sýna því þann sóma sem því ber,“ segir Helgi.