„Það er ánægjuleg staðfesting fyrir okkur að fá Svaninn.“ segir Konráð Jónsson, framkvæmdastjóri Litrófs. „Þetta er lokahnykkurinn á löngu ferli til að tryggja að umhverfismálin séu í forgangi allt frá upphafi til loka framleiðsluferlisins hjá okkur. Svo var sérstaklega gaman  að fá Svaninn frá Svandísi“, segir Konráð í tilkynningu sem send var út í dag af þessu tilefni.

Fram tilkynningunni að kröfur Svansins fyrir prentsmiðjur eru mjög strangar, sérstaklega hvað varðar efnanotkun, sem er þýðingarmesti umhverfisþátturinn í rekstri prentsmiðja en auk þess er lögð áhersla á fjölmarga aðra þætti, s.s. notkun umhverfismerkts eða endurunnins pappírs við prentunina, hlutfall úrgangspappírs við framleiðsluna lágmarkaður og svo má lengi telja.

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem byggist á óháðri vottun og skilyrðum sem taka tillit til alls lífsferils vöru og þjónustu. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins svo að komandi kynslóðir hafi jafna möguleika og við til að mæta þörfum sínum. Alls er hægt að votta um 70 mismunandi vöru- og þjónustuflokka.