Starfsemi Becromal á Akureyri tekur rúmlega 80% af allri orku sem kemur inn á Eyjafjarðarsvæðið og er nú svo komið að raforka á svæðinu er uppseld. Fyrirtæki þar hafa þurft að keyra á varaaflstöðum knúnum steinolíu þegar raforka hefur verið skert til þeirra. Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að nýr iðnaður getur ekki sest að á Eyjafjarðarsvæðinu því flutningslínur inn á svæðið eru fulllestaðar.

Þórður Guðmundsson, forstjóri Landsnets, segir í samtali við Fréttablaðið ástandið ekki gott og hafi sveitarfélögin dregið lappirnar í skipulagsmálum.

Þá bætir Unnsteinn Jónsson, verksmiðjustjóri Vífilfells á Akureyri, því við að vegna þessa hafi fyrirtækið keyrt á olíu í fyrravor og aftur á þessu ári.