Í erindi sínu á miðstjórnarfundi Framsóknarflokksins í gær gagnrýndi Ragnar Árnason, prófessor í hagfræði, Seðlabankann harðlega.

Ragnar sagði að hið opinbera hafi farið út í ógætilegar fjárfestingar sem leiddu til umframeftirspurnar í hagkerfinu. Seðlabankinn hafi brugðist við því á rangan hátt, með því að hækka vexti. Það byggi á úreltum hagfræðikenningum sem geri ráð fyrir mun tregara fjárstreymi milli landa en nú er.

Niðurstaðan hafi orðið að efnahagslífið veiktist til muna, útflutningsgreinar lentu í vandræðum og verðbólgu aðeins frestað með því að hækka gengið. Nú láni erlendir bankar ekki til Íslands, en það hafi mest áhrif á lítil fyrirtæki sem taka þurfa þá lán með 15% vöxtum í stað 5%.

Ragnar sagði hættuna framundan meðal annars þá að lausafjárstaða bankanna rýrni enn frekar og vanskil fyrirtækja aukist. Hann leggur til að Seðlabankinn byrji nú þegar að lækka stýrivexti.

Frá þessu er greint á fréttavef Ríkisútvarpsins.