Viðskiptamódel íslensku viðskiptabankanna þriggja er í grunninn það sama og fyrir hrun og er freistnivandinn enn fyrir hendi. Þetta segir dr. Jakob Ásmundsson, framkvæmdastjóri fjármála og rekstrar hjá Straumi fjárfestingarbanka.

Jakob fjallar um samlíf viðskiptabanka- og fjárfestingarbanka í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Hann segir fjölmörg vandamál geta komið upp þegar fyrirtækjaráðgjöf, verðbréfamiðlun og eigin viðskipti eru á hendi viðskiptabanka. Hann spyr jafnframt hvort eðlilegt sé að sá sem lánar og sá sem veitir ráðgjöf sé einn og sami aðilinn og telur ólíklegt að starfsmenn miðlunar og fyrirtækjaráðgjafar bankanna ráðleggi viðskiptavinum sínum að sækja fjármögnun annað en til viðkomandi banka. Hann veltir því jafnframt upp hvort ekki sé til staðar sama hættan og fyrir hrun, þ.e.a.s. að starfsmenn miðlunar og fyrirtækjaráðgjafar bankans beiti óeðllegum þrýstingi innan bankans til að fá fyrirgreiðslu samþykkta.

Freistingin enn til staðar

Jakob segir m.a. viðskiptabankana, í skjóli ódýrrar ríkistryggðrar fjármögnunar, stunda í dag áhættusamar lánveitingar og stöðutökur til að styðja við fjárfestingabankastarfsemi sína í samkeppni við sérhæfð fjármálafyrirtæki. Það hafi í för með sér margvísleg neikvæð áhrif á gagnsæi á íslenskum fjármálamarkaði.

Hann telur að hertar reglur, svo sem um eiginfjárbindingu, og eftirlit með bankastarfsmönnum ekki duga til að koma í veg fyrir áhættusækni þeirra.

„Besta og ódýrasta leiðin er að skapa umhverfi sem stýrist af heilbrigðum hvötum. Lög, reglur og eftirlit munu aldrei ná að koma í veg fyrir freistnivanda ef freistingin er til staðar á annað borð. Það höfum við séð áður. Lausn vandans felst í að ráðast að rót hans, frekar en að reyna að koma í veg fyrir hinar ýmsu birtingarmyndir með flóknu regluverki og eftirliti,“ skrifar Jakob.