Á fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir liðlega 10,3 milljörðum króna til fjárfestinga samkvæmt sérstakri fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar 2013 til 2015.  Fjallað er um þetta á vefsíðu stjórnarráðsins . Þar segir að áætlunin taki til framkvæmda sem ráðgert er að fjármagna með veiðileyfagjöldum og arðgreiðslum af eignahluta ríkisins í viðskiptabönkuum eða sölu á þeim eignahlutum.

Áætlað veiðigjald og leiga á aflaheimildum á að skila 4,2 milljörðum króna til fjárfestingaráætlunarinnar á þessu ári. Þar af renna 2,5 milljarðar króna til samgönguframkvæmda. Má þar geta Norðfjarðarganga sem flýtt var í krafti áætlunarinnar er nú stendur yfir útboð Vegagerðarinnar og má áætla að verkið hefjist síðar á þessu ári. Þá verður framlag til rannsókna- og tækniþróunarsjóða aukið um 1,3 milljarða króna á árinu.

Í fréttinni segir að nærri 6,2 milljarðar króna af arði ríkisins af eignarhlutum þess í viðskiptabönkunum og hugsanlegrar sölu á þeim eignarhlutum verði varið til nýframkvæmda eða viðhalds fasteigna, örvunar græna hagkerfisins, skapandi greina og uppbyggingar ferðaþjónustunnar.

3.420 milljónum vrður varð í fasteignir og framkvæmdir. Þar af rennur milljarður í fangelsi, 800 milljónir í Hús íslenskra fræða og 640 milljónir í Herjólf og Landeyjahöfn. Um 1.030 milljónir renna í Græna hagkerfið, þar af 500 milljónir í grænan fjárfestingarsjóð og 280 milljónir í „grænkun fyrirtækja“ eins og það er orðað í fréttinni. Um 920 milljónir renna í skapandi greinar, þar af 470 milljónir í Kvikmyndasjóð og 200 milljónir í Netríkið Ísland. Þá eiga 750 milljónir að fara í ferðaþjónustuna, 500 milljónir í uppbyggingu ferðamannastaða og 250 í innviði friðlýstra svæða.