Bandaríska ríkið áformar að halda áfram að selja eignarhlut í bandaríska fjármála- og tryggingarisanum American International Group (AIG). Gangi allt eftir sem nú er á teikniborðinu mun ríkið fara undir 20% hlut í félaginu.

Ríkið neyddist til að leggja 182 milljarða dala, jafnvirði 22 þúsund milljarða íslenskra króna, til AIG haustið 2008 til að forða félaginu frá gjaldþroti eftir gríðarlegt tap í viðskiptum með framvirka samninga og afleiður. Við það eignaðist bandaríska ríkið 92% hlut í AIG. Ríkið hefur hægt og bítandi selt frá eignarhlut sinn á síðastliðnum tveimur árum í því skyni að fá eitthvað af fjármununum til baka. Fram til þessa hefur hlutafjársalan skilað ríkinu 23,3 milljörðum dala. Ríkið í dag 53% hlut í AIG sem talið að sé um 30 milljarða dala virði.

Fram kemur í frétt AP-fréttastofunnar af málinu, að tryggingafélagið hafi skilað hagnaði á síðastliðnum tveimur árum og stefni AIG að því að greiða ríkinu alla fjármunina til baka ásamt vöxtum.

AIG Global Investment Group, fjárfestingararmur AIG, keypti í maí árið 2007 hlut Novators, félags Björgólfs Thor Björgólfssonar, í búlgarska símafyrirtækinu BTC fyrir 1,1 milljarð dala, jafnvirði 60 milljarða króna á þávirði.