Hagnaður námufyrirtækisins Rio Tinto nam rúmum 21 milljörðum dala á árinu 2021, en hagnaðurinn jókst um 116% frá árinu áður. Rekstrarhagnaður félagsins fyrir afskriftir nam 37,7 milljörðum dala sem er 58% aukning frá 2020. Þetta kemur fram í ársreikningi félagsins. Tekjur félagsins námu rúmum 63 milljörðum dala á árinu, sem er 42% aukning frá árinu áður.

Félagið mun greiða 16,8 milljarða Bandaríkjadali, eða rúmlega 2 þúsund milljarða, í arð til hluthafa fyrir rekstrarárið 2021. Félagið greiddi 9,1 milljarðs dala í arð til hluthafa á fyrri hluta ársins 2021. Nú hefur félagið tilkynnt að það ætli að greiða 7,7 milljarða dala til viðbótar í arð til hluthafa.

Rio Tinto er skráð í Kauphöllina í London og er hluti af FTSE 100 vísitölunni, sem inniheldur hundrað félög með hæsta markaðsvirði Kauphallarinnar. Tveggja þúsund milljarða arðgreiðslur félagsins til hluthafa eru þær næstmestu í sögu FTSE 100 vísitölunnar, að því er kemur fram í grein Financial Times. Stór hluti arðgreiðslnanna fer til Kína, en stærsti hluthafi Rio Tinto er ríkisrekni álframleiðandinn Chinalco sem á 15% hlut í félaginu. Chinalco mun fá rúmlega 2,5 milljarða dala í arðgreiðslur fyrir rekstrarárið 2021.

Mikil hækkun á hrávöruverði

Í kórónuveirufaraldrinum hafa námufyrirtæki notið góðs af verðhækkunum á hrávörum, og hluthafar slíkra félaga fengið greiddar háar fjárhæðir í arð. BHP, stærsta námufyrirtæki heims, greiddi til að mynda metfjárhæð í arð til hluthafa á fyrri hluta ársins, um 7,6 milljarða dala. Þannig greiddu námufyrirtækin Glencore og Antofagasta einnig milljarða dala í arð til sinna hluthafa.

Verð á járngrýti hækkaði mikið framan af árinu 2021 og var hæst komið upp í 230 dali tonnið. Framleiðsla á járngrýti skilaði Rio Tinto rúmlega 27 milljörðum dala í rekstrarhagnað, um 73% af heildar rekstrarhagnaði félagsins fyrir afskriftir. Verð á áli hækkaði um rúm 60% á árinu 2021 sem leiddi til þess að hagnaður félagsins af álframleiðslu tvöfaldaðist milli ára. Hagnaður félagsins af koparframleiðslu tvöfaldaðist milli ára.