Fimm starfsmenn Íslandsbanka, þar af tveir af þeim sex sem sitja í framkvæmdastjórn bankans, eru nú í leyfi frá störfum vegna tengsla við rannsóknir mála hjá embætti sérstaks saksóknara  á málefnum Glitnis. Af þeim fimm sem um ræðir eru, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, þrír af æðstu starfsmönnum bankans, Jóhannes Baldursson, yfirmaður markaða, Vilhelm Þorsteinsson, yfirmaður fyrirtækjasviðs og Atli Rafn Björnsson, viðskiptastjóri sjávarútvegsmála á fyrirtækjasviði bankans.

Atli Rafn og Vilhelm voru síðast af þessum fimm sendir í leyfi, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Hin sem send hafa verið í leyfi vegna rannsókna eru Guðný Sigurðardóttir og Bjarni Jóhannesson sem störfuðu hjá Glitni fyrir hrun. Guðný er ein þeirra sem slitastjórn Glitnis hefur stefnt í Aurum-málinu svokallaða. Rannsóknir sérstaks saksóknara er varða Glitni tengjast meðal annars málefnum félagsins Stíms, eins og greint hefur verið frá á síðum Viðskiptablaðsins.

Tveir starfsmenn til viðbótar, Magnús Arnar Arngrímsson og Rósant Már Torfason, voru sendir í leyfi vegna rannsókna  og stefnu slitastjórnar fyrir nokkru en þeir eru nú hættir störfum hjá bankanum.

Innri reglum bankans fylgt

Már Másson, yfirmaður á samskiptasviði bankans, vildi ekki tjá sig um rannsóknir á hendur starfsmönnum bankans né heldur tjá sig um hvaða starfsmenn væru nú í leyfi vegna rannsókna á falli Glitnis 2008. „Ég get einungis staðfest að fimm núverandi starfsmenn Íslandsbanka eru í leyfi vegna rannsóknar sérstaks saksóknara á falli Glitnis haustið 2008. Samkvæmt verklagsreglum bankans verða viðkomandi aðilar í leyfi á meðan staða þeirra er metin og mál þeirra skýrast.“

Friðrik Sophusson, stjórnarformaður Íslandsbanka, segir það eðlilegan hlut að fyrrverandi starfsmenn Glitnis séu til rannsóknar eftir það sem á undan er gengið, þ.e. hrun Glitnis. Á rannsóknarstigi þurfi að greiða úr málum og skýra þau og starfsmenn Glitnis, sem margir hverjir eru nú hjá Íslandsbanka, séu eðlilega kallaðir til þegar svoleiðis er. Hann segir Íslandsbanka styðjast við innri reglur í þessum málum, sem geri ráð fyrir að starfsmenn séu sendir í leyfi af ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Hann vildi ekki tjá sig um hvaða skilyrði það væru, en sagði þau eðlileg og venjubundin og samþykkt af Fjármálaeftirlitinu.