*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 21. febrúar 2006 18:39

Ritstjóri frá Financial Times á aðalfundi SA

haldinn 25.apríl á Nordica

Ritstjórn

Aðalfundur Samtaka atvinnulífsins verður haldinn þriðjudaginn 25. apríl næstkomandi á Hótel Nordica. Meðal gesta verður Quentin Peel, einn af ritstjórum Financial Times og leiðarahöfundur. Peel hefur áratuga starfsreynslu hjá Financial Times en hann hóf störf á blaðinu árið 1975. Peel hefur meðal annars sérhæft sig í málefnum Evrópu, en í dag er hann ritstjóri alþjóðamála hjá Financial Times og skrifar t.d. eigin dálk um alþjóðamál á hverjum þriðjudegi.

Í frétt frá SA segir að Peel muni á aðalfundi SA fjalla um nýjustu strauma og stefnur í alþjóðamálum, áskoranir og tækifæri sem hnattvæðingin hefur í för með sér og ekki síst, hvernig Ísland getur nýtt sér tækifærin í breyttri heimsmynd.

Financial Times er leiðandi dagblað á heimsvísu sem fjallar um viðskipti og efnahagsmál. Það kom fyrst út árið 1884 og árið 1893 var það fyrst prentað á bleikan pappír sem í dag einkennir fjölda viðskiptablaða. Það hefur öflugan lesendahóp í viðskiptalífinu á bak við sig en Financial Times er í dag prentað í 23 borgum víða um heim, það er selt í 140 löndum og er með um milljón lesendur um heim allan. Blaðið heldur einnig úti fréttavefnum www.ft.com, sem er með 3,7 milljónir notenda og tugi milljóna flettinga í viku hverri.

Dagskrá aðalfundar SA verður nánar auglýst síðar, en opin dagskrá hefst stundvíslega klukkan 15:00 og verður lokið klukkan 16:30.