„Eini kosturinn sem Vigdís á er að segja af sér í báðum nefndum. Annars spillir hún og þvælist fyrir þeirri nauðsynlegu sparnaðarvinnu sem fram undan er í ríkisrekstrinum. Ef hún skilur það ekki, hljóta félagar hennar í Framsóknarflokknum að skilja það,“ skrifar Ólafur Stephensen, ritstjóri Fréttablaðsins. Hann skrifar í leiðara blaðsins í dag um ummæli þingmannsins í morgunútvarpi Bylgjunnar í gærmorgun sem túlkuð hafa verið á þann veg að hún hafi verið að hóta RÚV.

Ólafur segir ummæli Vigdísar meira en bara broslegan klaufaskap heldur grafalvarlegt mál. Vigdís er formaður fjárlaganefndar Alþingis og á sæti í hagræðingarnefnd ríkisstjórnarinnar.

„Vitað var að Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar Alþingis, ætti hvorki Íslandsmet í snjöllum pólitískum tímasetningum né dómgreind. [...] Auðvitað getur fólk gagnrýnt fréttaflutning RÚV, rétt eins og annarra fjölmiðla, og rökstutt þá gagnrýni. Það er hins vegar algjörlega galið af þingmanninum að tengja gagnrýni sína við fjármögnun fyrirtækisins, sem hún er í lykilstöðu til að hafa áhrif á, bæði sem formaður fjárlaganefndar og nefndarmaður í hagræðingarhópi ríkisstjórnarinnar. Svona getur stjórnmálamaður í vestrænu lýðræðisríki einfaldlega ekki leyft sér að tala.“

Hefnigirni fjárveitingarvaldsins

Ólafur segir afstöðu Vigdísar sömuleiðis vekja upp spurningar um hvort hefnigirnin og misbeiting fjárveitingarvaldsins eigi að gilda á öðrum sviðum í ríkisrekstri.

„Vill Vigdís Hauksdóttir taka fjárveitingar af fleiri ríkisstofnunum af því að hún er ósammála starfsmönnunum, en ekki af því að spara þarf fé skattgreiðenda? Til dæmis af háskólunum?“ spyr Ólafur og bætir við: „Ef ummæli Vigdísar standa óhögguð og hún situr áfram í báðum nefndum, er hægt að gera hvers kyns niðurskurð á því fé sem Alþingi skammtar Ríkisútvarpinu tortryggilegan.“