*

mánudagur, 25. október 2021
Fólk 17. september 2021 13:20

Rósa nýr fjármálastjóri Regins

Rósa Guðmundsdóttir tekur við af Jóhanni Sigurjónssyni sem framkvæmdastjóri fjármála hjá Regin.

Ritstjórn
Rósa Guðmundsdóttir
Haraldur Guðjónsson

Rósa Guðmundsdóttir hefur verið ráðin sem framkvæmdastjóri fjármála hjá fasteignafélaginu Regin og mun hefja störf í lok október. Rósa tekur við starfinu af Jóhanni Sigurjónssyni sem mun starfa áfram innan félagsins í nýju starfi. Þetta kemur fram í tilkynningu Regins til Kauphallarinnar.

Rósa hefur undanfarin fjögur ár starfað sem forstöðumaður sparnaðar og útlána á einstaklingssviði Íslandsbanka, þar sem hún bar m.a. ábyrgð á inn- og útlánum til einstaklinga sem og sölu á verðbréfum til almennra fjárfesta og séreignasparnaði bankans. Þá hefur hún á síðastliðnum árum leitt innleiðingu á stafrænum lausnum sem stutt hafa umbreytingar í einstaklingsþjónustu bankans en frá árinu 2019 hefur hún borið ábyrgð á forgangsröðun verkefna á upplýsingatæknisviði sem snúa að útlánavörum bankans.

Rósa hóf störf á alþjóðasviði Íslandsbanka árið 2004 í kjölfar framhaldnáms í Bandaríkjunum. Á árunum 2006-2016 starfaði hún sem viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði og í fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka þar sem hún vann að fjármögnun margra stærstu fyrirtækja í viðskiptum við bankann.

Þá starfaði hún sem sjóðsstjóri hjá Íslandssjóðum á árunum 2016-2017 og sat samhliða því í stjórn Allarahanda GL og sem varamaður í stjórn Ölgerðarinnar. Hún sat einnig í stjórn Borgunar árin 2011-2015.

Rósa er með M.S. gráðu í iðnaðarverkfræði og aðgerðargreiningu frá Pennsylvania State University og B.S. gráðu í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands ásamt því að hafa lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.